Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 135 . mál.


161. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 48/1992, um breyting á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði laga þessara skulu þó ekki koma til framkvæmda um Iðnþróunarsjóð fyrr en við álagningu 1996 vegna tekna frá og með 9. mars 1995 til 31. desember 1995 og eigna í lok þess árs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma skulu falla niður tekjuskattur, eignarskattur og sérstakur eignarskattur sem lagður var á Iðnþróunarsjóð á árinu 1995 vegna tekna ársins 1994 og eigna í lok þess árs. Við ákvörðun á fyrirframgreiðslu þinggjalda Iðnþróunarsjóðs á árinu 1996 skal miða við 80% þeirra þinggjalda sem voru álögð á árinu 1995.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 48/1992, að því er varðar skattskyldu Iðnþróunarsjóðs. Með lögum þessum voru gerðar breytingar á lögum nr. 65/1982 þannig að opinberir fjárfestingarlánasjóðir voru gerðir skattskyldir. Sérákvæði var þó sett í bráðabirgðaákvæði sem gerði ráð fyrir að Iðnþróunarsjóður yrði ekki skattlagður fyrr en við álagningu ársins 1995. Var sú ráðstöfun byggð á því að fyrirheit höfðu verið gefin til annarra Norðurlandanna sem voru eignaraðilar að sjóðnum um að ekki yrði af skattlagningu hans fyrr en sjóðurinn yrði að fullu kominn í eigu íslenskra aðila sem skyldi verða þegar stofnfé hinna Norðurlandanna hefði verið að fullu endurgreitt. Þessi eignayfirfærsla varð ekki fyrr en 9. mars 1995 og var sjóðurinn gerður upp miðað við 8. mars 1995.
    Með hliðsjón af þessu þykir eðlilegt með vísan til þeirra forsendna sem lágu að baki frestun skattskyldu Iðnþróunarsjóðs að ákvæðum laganna verði breytt á þann veg að skattskylda sjóðsins taki ekki gildi fyrr en við það tímamark er sjóðurinn varð að fullu í eigu íslenska ríkisins. Eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum til samræmis við þetta.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Um athugasemdir vísast til almennra athugasemda.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að felld verði niður þau gjöld sem lögð hafa verið á Iðnþróunarsjóð á grundvelli laga nr. 65/1982, um skattskyldu lánastofnana, með síðari breytingum. Eðlilegt þykir að sérstaklega sé kveðið á um fyrirframgreiðslu upp í væntanlega álagningu þinggjalda ársins 1996. Er þar tekið tillit til þess að skattskyldan tekur ekki gildi fyrr en frá og með 9. mars 1995.